Innlent

Konan fundin heil á húfi

Gissur Sigurðsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Leitað var á sex snjóbílum, en einn þurfti frá að hverfa.
Leitað var á sex snjóbílum, en einn þurfti frá að hverfa. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitarmenn á snjóbílum fundu laust fyrir klukkan sex í morgun, konuna sem leitað hefur verið að norðan Mýrdalsjökuls og er hún heil á húfi, að sögn Sveins Rúnarssonar yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli, sem hefur verið í stjórnstöð aðgerðanna í nótt.

Konan hafði komið sér fyrir í Skála í Hvanngili og var hún með birgðir til nokkurra daga.

„Það fór bara vel um hana. Hún leitaði sér skjóls þegar veðrið skall á og kom sér þarna fyrir. Það amaði svo sem ekkert að henni og hún þekkir vel til þarna á svæðinu og var vel búin til vetraferða. Hún er enginn nýgræðingur,“ segir Sveinn Rúnar Rúnarsson, yfirlögregluþjónn.

Hún var með búnað með sér sem kallaður er Spot og sendir frá sér merki reglulega, sem höfðu verið að berast þar til á föstudaginn. Síðasta merkið barst frá henni klukkan eitt á föstudaginn.

„Hún var í þeirri trú að hún væri enn að senda frá sér merki. Hún varð ekki vör við að merkið væri ekki að skila sér.“ Þess vegna notaði hún ekki neyðartalstöð sem er að finna í skálanum. „Hún var með gsm síma líka en áttaði sig ekki á því að tækið væri ekki að senda frá sér.“

Konan fer nú til byggða, en leitin byrjaði aftur í gærkvöldi eftir hlé. Leitað var á sex snjóbílum í fyrstu.

Sjá einnig: Komast ekki til að leita að konunni sökum veðurs

„Það bilaði nú einn og varð frá að snúa og tveir héldu áfram og fundu hana í Hvanngili. Svo voru þrír aðrir snjóbílar lagðir af stað frá Sólheimum og yfir Sólheimajökul og áleiðis yfir Mýrdalsjökul,“ segir Sveinn.



Einnig stóð til að notast við vélsleða við leitina en veðrið á svæðinu er svo slæmt og það er svo hvasst að ekki hefur verið hægt að senda vélsleðahópa á jökulinn.


Tengdar fréttir

Komast ekki á leitarsvæðið

Á annan tug björgunarsveitarmanna reyna nú að komast að Mýrdalsjökli þar sem leita á að konu sem saknað hefur verið síðan á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×