Innlent

Menningarsetur múslima kannast ekki við milljónagjöf Sádi Arabíu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ahmad Seddeq, trúarleiðtogi Menningarseturs múslima á Íslandi.
Ahmad Seddeq, trúarleiðtogi Menningarseturs múslima á Íslandi.
„Þessi peningur er ekki ætlaður okkur,“ sagði Ahmad Seddeq trúarleiðtogi Menningarseturs múslima á Íslandi varðandi hundrað milljóna gjöf Sádi Arabíu til þess að styðja við byggingu mosku á Íslandi. Vísir greindi frá því í dag að sendiherra Sádi Arabíu hefði tilkynnt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, frá því að Sádi Arabía styðji byggingu mosku á Íslandi og hyggist leggja til byggingarinnar um 135 milljónir íslenskra króna.

„Við erum ekki að byggja mosku enda var landið gefið Félagi múslima á Íslandi.“

Ahmad segist hafa heyrt af stuðningi Sádi Arabíu í gegnum fréttirnar og að Menningarsetri múslima hafi aldrei verið boðin slík gjöf.

Seddeq segist ekki vita hver sýndi nýjum sendiherra Sádi Arabíu lóðina þar sem moskan mun rísa en sagt var frá því á vefsíðu Forseta Íslands í dag að sendiherrann hefði skoðað lóðina.

Á Íslandi eru starfrækt tvö félög múslima svo vitað sé, annars vegar Menningarsetur múslima og hins vegar Félag múslima á Íslandi. Fyrra félagið hefur verið harðlega gagnrýnt af því seinna en Salmann Tamimi, trúarleiðtogi Félags múslima á Íslandi, sagðist hafa rekið þá sem í forsvari eru fyrir Menningarsetrið úr sínu félagi sökum öfgakenndra hugsana og ofstækis. Menningarsetur múslima hefur aðsetur í Ýmishúsi en kaup á því voru fjármögnuð af einstaklingum frá Sádi Arabíu á sínum tíma.

Salmann hafði heldur ekki heyrt af stuðningi Sádi Arabíu til moskubyggingarinnar áður en Vísir hafði við hann samband. Fyrr í kvöld sagði hann félagið aldrei myndu taka við slíkri gjöf frá ríkisstjórn sem bryti á mannréttindum þegna sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×