Viðskipti innlent

Til skoðunar að hækka þjónustugjöld

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Bankastjóri Landsbankans segir til skoðunar að hækka þjónustugjöld bankans enda hafi stærstur hluti gjaldanna ekki verið hækkaður í sjö ár. Hann segir bankann markvisst hafa selt eignir undanfarið til að greiða meiri arð í ríkissjóð.

Þjónustugjöld stóru bankanna þriggja hafa sætt mikilli gagnrýni í kjölfar mikils hagnaðar þeirra á síðasta ári. Hagnaður Landsbankans nam 29,7 milljörðum króna eftir skatta, en hreinar þjónustutekjur námu 5,8 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir bankann ekki hafa hækkað stóran hluta sinna gjalda í sjö ár. Hins vegar sé hann starfandi á samkeppnismarkaði.

„Við þurfum að skoða það. Það eru engar hækkanir í spilunum núna, en maður getur ekki útilokað að einhverjar hækkanir komi til síðar. Við erum með mun lægri þjónustutekjur heldur en til dæmis hinir stóru bankarnir og við þurfum að skoða þetta og verðleggja okkur rétt á hverjum tíma,“ segir Steinþór.

Bankinn mun eftir næsta aðalfund hafa greitt 53,5 milljarða króna í arð til ríkissjóðs á síðustu 18 mánuðum.

„Við höfum verið markvisst að selja áhættusamar eignir frá okkur og gera meira að lausafjár hæfum eignum inn í efnahagsreikninga. Allt þetta miðar að því við getum borgað eigandanum, ríkinu, meiri arðgreiðslur og það höfum við verið að gera.“

Forsætisráðherra gagnrýndi nýverið að almenningur njóti ekki betri kjara í ljósi hagnaðar bankanna þriggja. Gagnrýndi hann Landsbankann sérstaklega þar sem hann var í eigu ríkissjóðs og sagði hann þurfa að draga úr vaxtamun.

„Vaxtamunur Landsbankans á seinasta ári var 2,4 prósent. Hann er lægstur allra bankanna. Nettó vaxtatekjur Landsbankans lækkuðu um sex milljarða á milli ára. Þarna erum við sannarlega með mun lægri vaxtarmun heldur en aðrir.“


Tengdar fréttir

Arion banki hættir við hækkanir

Arion banki hefur ákveðið að hætta við fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrá bankans en þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×