Innlent

„Síminn hættir ekki að hringja“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sólmyrkvagleraugu eru uppseld hér á landi eins og alls staðar í Evrópu. Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnu­skoðunarfélags Seltjarn­ar­ness segir að fólk , og ekki síst ferðaþjónustufyrirtæki, hafi tekið seint við sér en hann hefur ekki undan við að svara fyrirspurnum um gleraugun. 

Það var Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem sá um að panta gleraugun inn en formaður félagsins segir að útilokað sé að verða sér úti um sólmyrkvagleraugu eins og er. Hann hvetur fólk til að skiptast á að setja gleraugun upp svo sem flestir geti notið myrkvans. Ef það verður skýjað gætu gleraugun orðið óþörf og hægt sé að nota rafsuðugler og geisladiska á svipaðan hátt og gleraugun sjálf.

Sævar segist hafa hringt til framleiðanda gleraugnanna til að reyna fá fleiri send hingað til lands. 

„Þeir hlógu bara að okkur. Þetta gerist eiginlega fyrir alla sólmyrkva, fólk tekur alltof seint við sér og því miður er eftirspurnin bara miklu meiri en framboðið. Síminn stoppar ekki og hefur ekki stoppað síðustu daga en því miður getum við ekki pantað fleiri gleraugu, það er bara allt þurrausið allstaðar,“ segir hann. 

Þá hafa ferðaþjónustufyrirtækið og flugfélög sett sig í samband við stjörnuskoðunarfélagið í von um að verða sér úti um gleraugu.

„Þeir ættu að læra mikið af þessu fyrir árið 2026 þegar næsti myrkvi gengur yfir. Byrjið núna að plana,“ eru ráð Sævars. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×