Fótbolti

Fer Cristiano Ronaldo í bandarísku deildina árið 2018?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Blaðamaður Sports Illustrated slær því upp hjá sér í dag að Cristiano Ronaldo ætli sér að yfirgefa Evrópu þegar núverandi samningur hans rennur út og reyna fyrir sér á bandaríska markaðnum.

Samningur Cristiano Ronaldo og Real Madrid rennur út sumarið 2018 en Portúgalinn verður þá 33 ára gamall. Ronaldo hefur áhuga að fara sömu leið og gamall liðsfélagi hans hjá Manchester United, nefnilega David Beckham.

Beckham er samt ekki eini heimsfrægi knattspyrnumaðurinn sem reynir fyrir sér í bandarísku deildinni og á þessu tímabili hafa menn eins og Frank Lampard, David Villa og Kaka samið við bandarísk félög.

Samkvæmt fréttinni í Sports Illustrated þá ætlar Cristiano Ronaldo að koma til Bandaríkjanna á frjálsri sölu og hagnast vel á bandaríska markaðnum.

David Beckham var 32 ára gamall þegar hann fór til Los Angeles Galaxy eða einu ári en yngri en Ronaldo verður árið 2018. Frank Lampard (37 ára) og Steven Gerrard (35 ára), sem eru báðir á leiðinni í MLS-deildina, fara hinsvegar seinna á ferlinum en Beckham gerði árið 2007.

David Beckham er að setja á laggirnar fótboltalið í Miami sem spilar væntanlega sitt fyrsta tímabil í MLS-deildinni árið 2017. Það gæti því farið svo að Cristiano Ronaldo myndi spila fyrir félagið hans Beckham eftir þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×