Innlent

Engin útsending í Sjónvarpi allra landsmanna ef tæknimenn fara í verkfall

Birgir Olgeirsson skrifar
Tæknimennirnir hafa boðað verkfall dagana 26. - 30. mars og verður þá engin útsending.
Tæknimennirnir hafa boðað verkfall dagana 26. - 30. mars og verður þá engin útsending. Vísir/GVA
Engin útsending verður í Sjónvarpi allra landsmanna dagana 26. - 30. mars næstkomandi ef af verður verkfalli tæknimanna á Ríkisútvarpinu.

Ólafur Ragnar Halldórsson er tæknimaður á RÚV og situr í samninganefnd tæknimanna. Þeir hafa farið fram á að gera sér kjarasamning við Ríkisútvarpið og losna undan almennum samningi sem Rafiðnaðarsamband Íslands er við Samtök atvinnulífsins.

„Í þeim samningi er ekki fjallað um tæknimenn sem slík. Þetta eru rafvirkjar að stórum hluta og við viljum komast í að gera samninga sjálfir sem henta okkur með vaktaákvæðum og öðru slíku. Við erum ekki einu sinni farnir að deila um kaup og kjör,“ segir Ólafur en samningafundir voru haldnir í gær og í dag en þeim miðaði ekki neitt. „Þannig stendur hnífurinn í þessari kú, við viljum fá að semja við okkar fyrirtæki um kaup og kjör.“

Ef tæknimenn á RÚV fara í verkfall þýðir það að útsendingar Sjónvarpsins munu leggjast alveg niður en dagskrá Rásar 1 og 2 að hluta. „Það er eitthvað í sjálfkeyrslu þar sem engir tæknimenn vinna. Sá hluti myndi haldast inni á Rás 2. Sjálfkeyrslan er þegar umsjónarmaður situr fyrir aftan hljóðnemann og spilar tónlist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×