Innlent

Gunnar Bragi á fundi utanríkismálanefndar: „Við erum búin að núllstilla ferlið“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Vísir/Pjetur
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, mætti á fund utanríkismálanefndar í morgun. Á fundinum var til umræðu bréf ráðherrans til Evrópusambandsins um að Ísland væri ekki umsóknarríki lengur að sambandinu.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata og áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, segir frá því á Facebook-síðu sinni að utanríkisráðherra hafi tekið af allan vafa varðandi aðildarumsóknina á fundinum:

„Ráðherra Utanríkismála á fundi utanríkismálanefndar rétt í þessu: Aðildarviðræðum er formlega lokið, við erum búin að núllstilla ferlið, ef ný ríkisstjórn vill hefja slíkar viðræður á nýju þá er hún á núlli.“

Utanríkismálanefnd á að vera utanríkisráðherra til ráðuneytis í utanríkismálum en ekki var haft samráð við nefndina vegna bréfsins fræga sem Gunnar Bragi afhenti ESB í liðinni viku.

Túlkun bréfsins og hvað það þýðir í raun varðandi aðildarumsókn Íslands að sambandinu hefur verið nokkrum vafa undirorpinn en í huga utanríkisráðherra er málið kristaltært: aðildarviðræðum er formlega lokið.


Tengdar fréttir

Brigslað um svik og svínarí

Hiti var í þingmönnum í gær vegna ESB-mála. Stjórnarandstaðan sakar stjórnina um valdníðslu og brot gegn þingræðinu. Forsætisráðherra sagður svíkja drengskaparheit. Besta mögulega leiðin, segir forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×