Íslenski boltinn

Dóra María í pásu: Það hefur verið gert grín að mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir.
Dóra María Lárusdóttir. Vísir/Daníel
Knattspyrnukonan Dóra María Lárusdóttir segist ekki sakna fótboltans mikið en ein reyndasta landsliðskona Íslands frá upphafi hefur ekkert æft fótbolta síðan að tímabilinu lauk síðasta haust.

Dóra María ræðir um framtíðaráform sín í viðtali við Morgunblaðið í dag en hún var í skíðaferð í Austurríki á sama tíma og íslenska kvennalandsliðið var að spila í Algarve-bikarnum á dögunum.

„Ég vil ekki vera með neinar yfirlýsingar en þar hefur blundað í mér lengi að taka pásu. Ég er ekki búin að æfa neitt síðan í haust en útiloka samt ekkert að taka fram skóna í sumar," sagði Dóra María í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í morgun.

„Ég bjóst við að þetta yrði skrýtnara. Það kom mér á óvart hvað maður er fljótur að kúpla sig út," sagði Dóra María sem varð fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að spila hundrað A-landsleiki fyrir þrítugt.

„Það hefur verið gert grín að mér með þetta, að ég segist á hverju hausti vera hætt, en svo hefur þetta alltaf þróast þannig að ég byrja aftur um áramót. Núna var ég búin að ákveða það alveg fyrir síðasta tímabil að taka mér pásu eftir það. Ég veit ekki hvort það verður í eitt ár eða hvað og finnst ég ekki þurfa að taka neina ákvörðun um það strax. Mig langaði bara til að gera eitthvað annað," sagði Dóra María ennfremur í viðtalinu við Sindra.

Dóra María segist vera búin að upplifa flest sem kemur að fótboltanum. "#Ég er búin að spila yfir hundrað landsleiki, verða Íslandsmeistari fimm ár í röð, búa í þremur löndum og fara í lokakeppni Em tvisvar. Það er helst að maður hefði viljað komast á HM en það er langt í næsta mót. Hver veit samt hvað gerist," segir Dóra María lok viðtalsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×