Viðskipti innlent

Segja vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í ESB málinu skapa hættulegt fordæmi

ingvar haraldsson skrifar
Viðskiptaráð telur að farsælasta lausnin væri að hlé á aðildarviðræðum á ESB út þetta kjörtímabil.
Viðskiptaráð telur að farsælasta lausnin væri að hlé á aðildarviðræðum á ESB út þetta kjörtímabil. vísir/afp
Viðskiptaráð Íslands telur verklag ríkisstjórnarinnar varðandi stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu síðustu daga skapa hættulegt fordæmi. Vinnubrögðin séu til þess fallin að auka á þann stjórnmálalega óstöðugleika sem einkennt hafi Ísland frá haustmánuðum 2008 að mati Viðskiptaráðs.

„Ef ætlunin er að efla lífskjör á Íslandi er grundvallaratriði að efnahagslegur stöðugleiki aukist. Þverpólitísk sátt um aðferðafræði og málefnaleg umræðuhefð eru hryggjarstykki þess markmiðs,“ segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði.

Telja stöðuna óbreytta

Hins vegar líta samtökin svo á að staða aðiladarumsóknar Íslands sé óbreytt. Staðan hafi verið sú sama frá því ný ríkisstjórn tók við völdum. „Telji núverandi ríkisstjórn rétt að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið ætti slíkt að gerast samkvæmt ríkjandi stjórnskipulagi og stjórnmálalegum hefðum,“ segir Viðskiptaráð.

Bent er á að Viðskiptaráð hafi þegar ályktað að farsælasta lausnin væri að hlé væri gert á aðildarviðræðum við ESB út þetta kjörtímabil. Þá séu nýjustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki til þess fallnar að skapa sátt eða traust hér á landi. Þetta gangi því þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×