Fótbolti

Guðjón skoraði í Íslendingaslag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón í búningi Halmstad.
Guðjón í búningi Halmstad. vísir/hbk.se
Guðjón Baldvinsson skoraði fyrra mark FC Nordsjælland gegn FC Vestsjælland í Íslendingarslag í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Nordsjælland vann 2-0 sigur, en mörkin komu í sitthvorum hálfleiknum.

Garðbæingurinn fékk góða sendingu fyrir markið og skallaði hann boltann í netið, en markið kom í uppbótartíma í fyrri hálfleik.

Nordsjælland bætti svo við marki á 68. mínútu. David Moberg Karlsson, fyrrum leikmaður Sunderland, skoraði þá eftir snarpa skyndisókn og Nordsjælland komið í afar góða stöðu.

Guðjón var í byrjunarliði Nordsjælland ásamt Guðmundi Þórarinssyni, en Guðjóni var skipt af velli eftir rúmlega klukkutíma leik og Guðmundi sömuleiðis, í uppbótartíma.

Eggert Gunnþór Jónsson spilaði allan leikinn fyrir Vestsjælland, en þeir Rúnar Alex Rúnarsson og Adam Örn Arnarsson sátu allan tímann á varamannabekk Nordsjælland.

Eftir sigurinn er Nordsjælland í fimmta sæti deidlarinnar með 31 stig, þremur stigum frá Randers sem er í Evrópusæti. Vestsjælland er hins vegar í veseni; í ellefta sæti, átta stigum frá öruggu sæti í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×