Íslenski boltinn

Frábær endurkoma FH gegn Molde

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vísir/FH
FH gerði sér lítið fyrir og lagði tvöfalda Noregsmeistara, Molde, að velli 3-2 á Marbella æfingarmótinu á Spáni í dag. FH lenti 0-2 undir, en sýndu frábæran karakter og komu til baka.

Það byrjaði ekki byrlega fyrir FH. Tvö klaufaleg mörk á fyrstu tuttugu mínútunum settu Molde, sem er lands- og bikarmeistari í Noregi, í góða stöðu.

Davíð Þór Viðarsson minnkaði muninn fyrir FH eftir horn og Kassim Doumbia jafnaði metin með þrumuskoti eftir aukaspyrnu. Staðan 2-2 í hálfleik.

Mikill hiti var í mönnum í síðari hálfleik, en það var FH sem skoraði eina mark síðari hálfleiks. Davíð Þór var þá fljótur að hugsa þegar FH fékk aukaspyrnu, stakk boltanum inn fyrir á Emil Pálsson sem vippaði boltanum skemmtilega yfir markmann Molde. Það reyndist sigurmarkið.

Lokatölur urðu 3-2 sigur FH, en liðið gerði jafntefli við Vålerenga í fyrsta leiknum. Liðið mætir svo SJK frá Finnlandi á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×