Innlent

Þórólfur mættur til vinnu eftir árás í Ármúla

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu.
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu. Vísir/Anton Brink
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, er mættur til vinnu í dag eftir að hafa orðið fyrir árás í Ármúlanum í gær. DV greindi frá því að vitni hefði séð Þórólf hlaupan undan leðurklæddum manni í Ármúla. Leðurklæddi maðurinn var handtekinn í kjölfarið og leitaði Þórólfur sér aðhlynningar á slysadeild Landspítalans til að verða sér úti um áverkavottorð.

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir stofnunina ekki ætla að tjá sig um þetta atvik því það sé stefna Samgöngustofu að ræða ekki einstaka mál. „Það er okkar stefnumið að við ræðum ekki mál sem varða einstaka viðskiptavini,“ segir Þórhildur. Hún segir engu máli skipta þó svo að ráðist hafi verið á forstjóra Samgöngustofu og að málið verði að hugsanlega að lögreglumáli, Samgöngustofa mun ekki ræða mál sem varða einstaka viðskiptavini.

„Þetta er bara staðfest stefna að mál sem varða fólk, hvort sem það vinnur hjá stofnunni eða er viðskiptavinur stofnunarinnar, við ræðum það ekki í fjölmiðlum,“ segir Þórhildur en segist reiðubúin hvenær sem er að ræða starfsemi Samgöngustofu en vill þó ekki tjá sig um það hvort Samgöngustofa muni efla öryggisgæslu hjá stofnunni.

„Við erum eins og aðrar stofnanir alltaf meðvituð um hagsmuni viðskiptavina og starfsemi. En þetta mál, hvað sem gerðist, hvernig það gerðist, hvað við gerum eða gerum ekki, það því miður get ég yfir höfuð ekki rætt,“ segir Þórhildur.

Ekki hefur náðst í Þórólf vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×