Erlent

Fjögur ár frá flóðbylgjunni – Myndbönd

Samúel Karl Ólason skrifar
Japanir kveiktu á luktum til að minnast þeirra sem fórust.
Japanir kveiktu á luktum til að minnast þeirra sem fórust. Vísir/EPA
Japanir minnast þess í dag að fjögur ár eru frá því að gífurlega stór og mikil flóðbylgja skall á austurströnd landsins. Þúsundir létu lífið og flóðbylgjan olli kjarnorkuslysi í Fukushima, sem mun draga dilk á eftir sér í áratugi.

Samkvæmt yfirvöldum í Japan hefur verið staðfest að 15.891 létu lífið og 2.584 er enn saknað. Mínútu þögn var um landið allt klukkan 14:46 að staðartíma, en þá varð 9 stiga jarðskjálfti fyrir utan strendur Japan fyrir fjórum árum. Flóðbylgjan kom í kjölfar hans.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni, er margir bæir við strendur Japan, enn eins og draugabæir. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi heitið miklum fjármunum til uppbyggingar hefur starfið gengið hægt víða.

Enn hafa 230 þúsund Japanir enn ekki geta snúið aftur til heimila sinna og flest þeirra vegna kjarnorkumengunar frá Fukushima. Þar af búa 80 þúsund manns enn í tímabundnum neyðarskýlum.

Eftir kjarnorkuslysið var slökkt á öllum kjarnorkuverum landsins. Vegna mikils kostnaðar við annarskonar rafmagnsframleiðslu vilja yfirvöld og þorri atvinnulífsins þó kveikja aftur á kjarnorkuverum.

Íbúar Japan eru þó ekki sannfærðir um þörf þess. Margir hafa áhyggjur af mengun frá Fukushima og óttast áhrif hennar á heilsu fólks.

Krabbameinssérfræðingur sem kom að rannsóknum á heilsukvillum í kjölfar slyssins í Chernobyl, segir áhyggjur þessar þó ekki á rökum reistar.

„Áhrif mengunar á heilsu fólks voru lítil, en áhrif þess að hafa sífellt áhyggjur af afleiðingum mengunarinnar voru mun verri,“ sagði hún um niðurstöður rannsókna frá Chernobyl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×