Innlent

Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á tjóni sem ung kona varð fyrir í Byrginu

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðmundur Jónsson, forstöðumaður í vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilinu Byrginu var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn árið 2008.
Guðmundur Jónsson, forstöðumaður í vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilinu Byrginu var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn árið 2008. vísir/egill/pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af skaðabótakröfu ungrar konu sem vistuð var á meðferðarheimilinu Byrginu. Konan var vistuð í Byrginu þegar hún var ólögráða og varð fyrir gríðarlega miklu tjóni af vistun og meðferð þeirri sem forstöðumaður Byrgisins, Guðmundur Jónsson, viðhafði.

Konan sagði að varanleg örorka hennar sé bein afleiðing þeirrar meðferðar hún varð fyrir við vistunina í Byrginu og að íslenska ríkið eigi sök á því að hún hafi verið vistuð þar og jafnframt því að sú meðferð sem hún hafi sætt í Byrginu hafi verið látin viðgangast.

Barnaverndarstofa bar ekki ábyrgð

Konan studdi meðal annars kröfu sína um viðurkenningu bótaskyldu íslenska ríkisins í fyrsta lagi við það að Barnaverndarstofa, sem rekin er á ábyrgð ríkisins, hafi samþykkt að konan yrði vistuð í Byrginu. Héraðsdómur Reykjavíkur segir í dómi sínum konuna ekki hafa fært fram nokkur gögn til stuðnings þessari fullyrðingu.

Í málinu lá fyrir staðfesting Barnaverndarstofu á því að starfsemi Byrgisins væri með öllu óviðkomandi Barnaverndarstofu. Samkvæmt dómnum hafði Byrgið hvorki leyfi Barnaverndarstofu til að taka einstaklinga undir átján ára aldri til meðferðar né hafði Barnaverndarstofa eftirlitsskyldu með starfsemi Byrgisins, sem ekki var rekið samkvæmt barnaverndarlögum.

Í dómnum kemur fram að konan hafi hvorki með gögnum né öðrum hætti hnekkt þessum upplýsingum frá Barnaverndarstofu.

Landlæknir bar ekki ábyrgð

Þá byggði konan kröfu sína á því að Byrgið hafi verið sjúkrastofnun sem fallið hafi undir ákvæði þágildandi laga um heilbrigðisþjónustu og fallið undir eftirlit landlæknisembættisins sem hefði brugðist eftirlitshlutverki sínu. Í dómnum kemur fyrir að Byrgið var ekki sjúkrastofnun og féll því ekki undir eftirlit landlæknisembættisins og hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur að landlæknir hefði gerst sekur um vanrækslu.

Barnaverndaryfirvöld báru ekki ábyrgð

Konan byggði einnig stefnu sína á því að hún hafi verið barn að aldri þegar hún var fyrst vistuð í Byrginu og hafi því Barnaverndaryfirvöld ákveðið að vista hana á meðferðarheimili sem ekkert eftirlit var með. Héraðsdómur Reykjavíkur sagði hins vegar konuna ekki hafa fært fram nokkur gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að barnaverndaryfirvöld hafi átt þátt í þeirri ákvörðun forsjármanns hennar að vista hana í Byrginu.

Íslenska ríkið bar ekki ábyrgð

Þá taldi konan íslenska ríkið bera ábyrgð sem vinnuveitandi á tjóni sem starfsmenn þess valdi. Héraðsdómur Reykjavíkur segir hins vegar ekki um ráðningarsamband að ræða þannig að íslenska ríkið beri ábyrgð á störfum forstöðumanns Byrgisins eða lögbrotum sem vinnuveitandi hans.

Var því íslenska ríkið sýkna af skaðabótakröfu konunnar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×