„Þeir voru alltaf að spyrja mig í sérnáminu hvernig ég gæti eiginlega verið með öll þessi börn. Ég sagði þeim að þetta væri af trúarlegum ástæðum sem við værum með öll þessi börn. Bandaríkjamenn vilja lítið tala um trúmál og alls ekki setja út á trú annarra. Þannig að allir sem ég sagði þetta við sögðu bara „Já, auðvitað, auðvitað, frábært!“ og eitthvað svona. Alveg þangað til ég hitti einhvern mann sem sagði „Bíddu, ertu ekki frá Íslandi? Eru þið ekki Lúterstrúar? Þið getið alveg átt börn þegar þið viljið.“ Þá hætti ég að nota þetta sem afsökun þegar það var einhver sem vissi eitthvað um Ísland.“
Sjá einnig: Yfirlæknir og átta barna móðir
Maður þarf ekki að vera lengi í kringum ykkur fjölskylduna til að sjá að það er mikill húmor í kringum ykkur?
„Já, við getum gert grín að hvort öðru og sjálfum okkur líka. Maður verður að geta hlegið að sjálfum sér. En með húmor kemur líka að maður getur orðið bráður. Ég get orðið mjög reið ef einhver gerir eitthvað á hlut barnanna minna. Það er enginn að abbast upp á „Big Mama“, það eru alveg hreinar línur,“ segir Ýr hlæjandi.
Hún nefnir dæmi um að hún hafi dregið strákana sína úr tannlæknastólnum þegar henni fannst aðstoðarmaður tannlæknisins ekki nógu almennilegur við þá.
„Svo hef ég hellt mér yfir einn skólabílstjóra hérna sem kom síðar í ljós að talaði enga ensku þannig að fína ræðan mín sem ég hélt yfir honum skilaði engu.“
Ýr segir að seinasta stóra uppákoman hafi verið á leikskólanum hjá yngstu dóttur hennar.
„Í fyrsta lagi móðguðu þau mig alfarið á foreldradaginn þegar ég kom og spurði hvort ég væri amma hennar. Það fór mjög illa. Síðan voru þau of mikið að segja mér eitthvað leiðinlegt, til dæmi að hún hefði talað of hátt. Bandaríkjamenn eru mjög gjarnir á að skreyta hlutina með of mörgum orðum. Í staðinn fyrir að segja að hún hefði talað of hátt þá var sagt að hún hefði notað útiröddina inni, sem við skildum nú ekki lengi vel. Svo sögðu þau að hún hefði líka notað útifæturna inni, sem var að hlaupa þegar hún átti að labba.“
Innslag úr þættinum Margra barna mæður má sjá í spilaranum hér að neðan.