Viðskipti innlent

Spá 430 milljörðum í tekjur af ferðaþjónustu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hressir ferðamenn við Hallgrímskirkju.
Hressir ferðamenn við Hallgrímskirkju. vísir/stefán
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar muni nema um 430 milljörðum króna árið 2017. Tekjur hennar á síðasta ári námu um 303 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að útflutningsverðmæti stóriðju námu 233 milljörðum króna og í sjávarútvegi 241 milljarði. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Spáin er að mestu leyti byggð á spá hagfræðideildar um fjölgun ferðamanna hér á landi. Talið er að ferðamönnum fjölgi um tuttugu prósent á þessu ári, fimmtán á næsta ári og fari svo niður í sögulegan vöxt sem er í kringum átta prósent árið 2017. Verði spáin að veruleika munu hátt í 1,5 milljón ferðamanna koma til landsins árið 2017.

Þetta mikla vaxtarskeið í komum erlendra ferðamanna sem hófst árið 2011 og hefur staðið síðustu fjögur ár er orðið þriðja mesta fjögurra ára vaxtarskeið íslenskrar ferðaþjónustu. Leita þarf fimmtíu ár aftur í tímann til að finna meiri vöxt á fjögurra ára tímabili. Yfirstandandi vaxtarskeið hefur þó haft margfalt meiri efnahagsleg áhrif en fyrri vaxtarskeið enda var íslensk ferðaþjónusta efnahagslega léttvæg fyrir um hálfri öld síðan.

Hér má sjá skýrslu Landsbankans sjónrænt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×