Innlent

Fyrrum leigusala Caruso gert að greiða 750 þúsund

Bjarki Ármannsson skrifar
Matur og vín borið út úr fyrrum húsnæði Caruso í desember í fyrra.
Matur og vín borið út úr fyrrum húsnæði Caruso í desember í fyrra. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Valdimar Jónsson, eigandi húsnæðisins við Þingholtsstræti þar sem veitingastaðurinn Caruso var áður, þurfi að greiða José Garcia, eiganda Caruso, fimm hundruð þúsund krónur í málskostnað vegna máls sem Valdimar höfðaði í júní. Málið var látið niður falla stuttu fyrir áramót en báðir aðilar kröfðu hinn um málskostnað.

José Garcia var læstur úti af staðnum í desember.Vísir/GVA
Vildi láta bera út vegna skulda

Valdimar höfðaði mál gegn José í júní í fyrra og krafðist dómsúrskurðar um að fá að bera starfsemi Caruso út úr húsinu við Þingholtsstræti 1. Sagðist hann hafa rift leigusamningi við veitingamanninn vegna vanefnda en José sagðist á móti ekki standa í skuld við Valdimar.

Það var svo þann 17. desember síðastliðinn, tveimur dögum eftir að leigusamningur Caruso átti að renna út, að Fréttablaðið greindi frá því að José og starfsfólk hans hefði verið læst út úr húsnæðinu. Fjórir menn á vegum Valdimars og föður hans hefðu komið, skipt um lása og reist vegg í baksundi hússins.

Sjá einnig: Báðir aðilar gera tilkall til eigna í fyrrum húsnæði Caruso

Sama dag var fyrirtaka í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur og fór lögmaður Valdimars þá fram á að málið yrði fellt niður, þar sem leigusamningurinn væri runninn út og því ekki þörf á dómsúrskurði um útburð.

Starfsfólk Caruso kom saman fyrir jól til að sækja eigur staðarins.Vísir/Vilhelm
Málið sagt höfðað að þarflausu

Lögmaður eigenda Caruso mótmælti því ekki að málið yrði fellt niður en krafðist þess að Valdimar yrði gert að greiða málskostnað. Fullyrti hann fyrir dómi að málið hafi verið höfðað að þarflausu, Valdimar hafi náð fram kröfum sínum með húsbroti og að málshöfðunin hafi aðeins verið til þess að afvegaleiða José og valda honum fjártjóni.

Valdimar krafðist þess aftur á móti að José yrði gert að greiða málskostnaðinn. Sagðist hann eiga fjárkröfu á hendur José vegna vangoldinnar leigu og að José hafi tafið meðferð málsins að óþörfu.

Sjá einnig: Jóladraumurinn rættist hjá veitingamönnum Caruso

Héraðsdómur komst þó að þeirri niðurstöðu að Valdimar bæri að greiða málskostnaðinn og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð. Jafnframt var Valdimar gert að greiða 250 þúsund krónur í kærukostnað og þarf hann því að greiða José samtals 750 þúsund. Veitingastaðurinn Caruso er nú rekinn við Austurstræti en Valdimar og faðir hans opnuðu veitingastaðinn Primo í húsnæðinu við Þingholtsstræti.


Tengdar fréttir

Veitingamaðurinn á Caruso læstur úti af húseigandanum

José Garcia, veitingamaður á Caruso, læstur úti af staðnum af húseigandanum vegna deilna um leigusamning. Mikið af eignum inni á staðnum og veggur reistur til að varna starfsfólki inngöngu. Kærði atvikið til lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×