Lögregla á Spáni handtók í dag ellefu manns vegna gruns um tengsl við hryðjuverk og hryðjuverkasamtökin ISIS.
Talsmaður lögreglu í Katalóníu segir að tíu karlmenn og ein kona hafi verið handtekin í fimm borgum og bæjum í norðausturhluta Spánar, þar á meðal í Barcelona.
Níu hinna handteknu eru Spánverjar, einn frá Marokkó og einn frá Paragvæ.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að alls 360 lögreglumenn hafi tekið þátt í samhæfðum aðgerðum lögreglu, sem eru einhverjar þær umfangsmestu til þessa í baráttu spænsku yfirvalda gegn hryðjuverkum.
Lögregla á Spáni hefur handtekið fjölda fólks á síðustu árum vegna gruns um að tengjast hryðjuverkasamtökum.
Í síðustu viku handtók lögregla í Katalóníu fjóra meðlimi sömu fjölskyldunnar, þar á meðal sextán ára tvíburadrengi, sem grunaðir voru um að hyggja á ferð til Sýrlands til að berjast við hlið liðsmanna ISIS.
Ellefu handteknir á Spáni vegna gruns um tengsl við ISIS
Atli Ísleifsson skrifar
