Erlent

Íranir senda herskip að ströndum Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Yfirvöld í Íran hafa ákveðið að senda herskip að ströndum Jemen. Um er að ræða tvö skip og samkvæmt Teheran er þeim ætlað að verja siglingaleiðir á svæðinu gegn sjóránum. Bandaríkin hafa ákveðið að flytja vopn til þeirra hópa sem berjast gegn Hútum í Jemen og Sádi-Arabía leiðir bandalag sem gert hefur loftárásir í Jemen.

Því hefur verið haldið fram að Íran standi að baki Hútum, sem stjórna nú stórum svæðum í Jemen. Því hafa yfirvöld í Teheran og Hútar neitað. Þrátt fyrir loftárásir hafa Hútar ekki hægt á sókn sinni í borginni Aden, sem Rauði krossinn hefur sagt vera hörmungarsvæði.

Samkvæmt AP fréttaveitunni barst hjálparaðstoð til borgarinnar með skipi í dag. Með skipinu eru einnig læknar frá Læknum án landamæra. Rauði krossinn þorir hins vegar ekki að flytja birgðirnar um götur Aden vegna bardaga þar.

Bandaríkin segja að óöldin í Jemen hafi gert al-Qaeda kleift að stækka og styrkjast þar í landi. Vængur samtakanna í Jemen er talinn vera einn sá hættulegasti og þeir hafa lengi viljað fremja árásir í vestrænum löndum.


Tengdar fréttir

Fordæma loftárásir á Jemen

Samtök hernaðarandstæðinga fordæma að loftárásirnar hafi ekki verið ræddar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Hundrað þúsund manns á flótta

Hálfum mánuði eftir að Sádi-Arabar og bandamenn þeirra hófu loftárásir á uppreisnarmenn í Jemen hafa tugir barna látið lífið.

Jemen sagt að hruni komið

Ástandið í Jemen hefur hríðversnað undanfarnar vikur. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna fordæmir árásir á almenna borgara og segir landið á barmi algers hruns. Borgarastyrjöldin styrkir stöðu öfgahópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×