Innlent

Varað við flughálku á Holtavörðuheiði og víðar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Hálka er á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði, en snjóþekja er á Lyngdalsheiði. Hálkublettur eru annars víða á Suðurlandi en snjóþekja á nokkrum leiðum, einkum í uppsveitum.

Þá varar Vegagerðin við flughálku á Holtavörðuheiði en þar er einnig skafrenningur. Á öðrum leiðum á Vesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum. Brattabrekka er enn ófær eftir nóttina.

Öxnadalsheiði enn ófær

Á Vestfjörðum er víða hálka eða snjóþekja og skafrenningur á fjallvegum. Enn er ófært er á Klettshálsi, Kleifaheiði, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Hálka er nokkuð víða á Norðurlandi vestra en þó er mikið autt í Skagafirði. Enn er ófært á Öxnadalsheiði en unnið að hreinsun.

Í Víkurskarði er hálka og skafrenningur en annars er víða hálkublettir og greiðfært á nokkrum köflum á Norðausturlandi.  Á Austurlandi er hálkublettir, einkum á utanverðu Héraði en annars er víða greiðfært nema á Vatnsskarði eystra en þar er snjóþekja. Greiðfært er með suðausturströndinni.

Veðurstofa Íslands spáir í dag suðvestan 8-15 metrum á sekúndu og éljum, hvassast við austurströndina og bjart með köflum norðaustanlands. Vaxandi norðaustanátt á morgun, 10-18 og slydda eða rigning austantil seinni partinn, en snjókoma inn til landsins. Hægari og úrkomulítið vestanlands. Hiti 0 til 5 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×