Erlent

Koma vopnum í hendur hersveita sem berjast gegn Hútum

Atli Ísleifsson skrifar
Talið er að um 550 manns hafi látist í bardögum í Jemen síðustu tvær vikurnar.
Talið er að um 550 manns hafi látist í bardögum í Jemen síðustu tvær vikurnar. Vísir/AFP
Bandarísk stjórnvöld segjast ætla að hraða vopnaflutningum til hersveita þeirra ríkja sem saman berjast gegn uppreisnarmönnum Húta í Jemen.

Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken greindi frá þessu fyrr í kvöld. BBC greint frá.

Sádi-Arabar leiða sóknina gegn Hútum sem hafa náð stórum hlutum Jemen á sitt vald og hrakið forseta landsins frá landinu.

Marie Claire Feghali, talsmaður Rauða krossins, segir ástandið í Aden vera vægast samt skelfilegt.

„Stríðið í Aden fer fram á hverri götu, á hverju götuhorni. Margir geta ekki flúið.“ Þá hefur borginni einnig verið lýst sem draugaborg, en hörð átök hafa staðið í borginni síðustu vikur milli Húta og sveita hliðhollum stjórn landsins.

Talið er að um 550 manns hafi látist í bardögum í landinu síðustu tvær vikurnar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að um tvö þúsund manns hafi særst á sama tímabili. Þá er áætlað að um 100 þúsund manns hafi neyðst til að flýja heimili sín.

Hjálparstofnanir reyna nú að koma hjálpargögnum til Aden sem hefur að stórum hluta verið lokuð af eftir að Hútar og bandamenn þeirra sóttu inn í borgina í mars, þannig að Abdrabbuh Mansour Hadi, forseti landsins, neyddist til að flýja til Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×