Innlent

Fresta hefur þurft skurðaðgerðum vegna verkfalls

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Fresta þurfti skurðaðgerðum á Landspítalanum í morgun vegna verkfallsaðgerða félagsmanna BHM. Starfandi forstjóri spítalans segir áhrifa verkfallsaðgerðanna gæta víða á spítalanum.

Verkfallsaðgerðir Bandalags háskólamanna hófust á miðnætti en um fimm hundruð félagsmenn BHM leggja niður störf í dag. Stór hluti þeirra starfar hjá Landspítalanum. Ljósmæður, geislafræðingar, náttúrufræðingar og lífeindafræðingar sem starfa á Landspítalanum taka þátt í verkfallsaðgerðunum. Lilja Stefánsdóttir starfandi forstjóri Landspítalans segir áhrifa aðgerðanna þegar farið að gæta á spítalanum.

„Verkfallsaðgerðir þeirra stéttarfélaga sem að nú eru í verkfalli hafa svipuð áhrif og áður það hægist á allri þjónustu sem er valbundin eða valkvæð. Þannig að það má reikna með að það dragi verulega úr öllum rannsóknum, skurðaðgerðum og meðferðum,“ segir Lilja.

Lilja segir áhrif verkfallsaðgerðanna víðtæk. „Verkföll hafa áhrif frá fyrstu mínútu, ef að svo má að orði komast, þannig að við erum strax farin að fresta og fella niður aðgerðir sem að voru áætlaðar. Þannig að spítalinn gengur örugglega en hann gengur hægar en á venjulegum degi,“ segir Lilja.

Langir biðlistar eftir skurðaðgerðum mynduðust á meðan á verkfallsaðgerðum lækna stóð frá því í október á síðasta ári fram í janúar. Ekki hefur enn tekist að vinna niður biðlistana. Lilja segir ljóst að biðlistarnir koma til með að lengjast enn frekar þar sem búið að er fresta þó nokkrum skurðaðgerðum í morgun.

„Þannig að þetta kemur svona í kjölfarið þannig að þetta gerir alla stjórnina og yfirsýn yfir það sem að við erum að gera og hvernig við forgangsröðum mjög brýna og mikilvæga,“ segir Lilja.

Næsti samningafundur í deilu BMH og ríkisins verður á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×