Innlent

Raskanir verða á sónarskoðunum og mæðravernd vegna verkfalls ljósmæðra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Verkföll aðildarfélaga BHM hefjast að öllu óbreyttu eftir páska, og munu hafa vítæk áhrif á starfsemi Landspítalans. Ljósmæður eru á meðal þeirra sem leggja niður störf og verða því meðal annars raskanir á sónarskoðunum, valkeisaraskurðum og mæðravernd. Verkfallið verður ótímabundið og mun standa yfir þrjá daga vikunnar, þriðjudag til fimmtudag, þar til samningar nást. 

Verkfallið mun að öllum líkindum raska starfsemi kvennadeildarinar umtalsvert þó að öllum bráðatilfellum og fæðingum verði sinnt. Öryggi verði ekki ógnað. 

„Við munum koma öllum konum sem koma í eðlilega fæðingu í fæðingu og þær fá fulla þjónustu. En þetta kemur auðvitað niður á einhverjum konum. Það verður takmörkuð þjónusta í valkeisurum, í gangsetningum, það verða eingöngu neyðargangsetningar. Svo kemur þetta gríðarlega niður á mæðraverndinni og sónarnum þar sem eru um fimmtíu konur skráðar á dag. Þær fá ekki sína þjónustu nema það sem nauðsynlegt þykir,“ segir Edda Sveinsdóttir formaður kjaranefndar ljósmæðra.

Ljósmæðranám er sex ár en Edda segir launin ekki vera í samræmi við það.

„Byrjunarlaun ljósmóður ná ekki fjögur hundruð þúsund krónum og það segir sig sjálft að það eru ekki laun sem nokkur maður lifir á í dagvinnu, það er bara ekki séns,“ segir Edda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×