Erlent

Fullyrða að lögreglan hafi vitað af yfirvofandi árás al-Shabab

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hér sjást liðsmenn Rauða krossins aðstoða fórnarlömb árásarinnar.
Hér sjást liðsmenn Rauða krossins aðstoða fórnarlömb árásarinnar. Vísir/AFP
Fjölmiðlar í Kenýa fullyrða að þarlend lögregluyfirvöld hafi haft vitneskju um yfirvofandi árás hryðjuverkasamtakanna al-Shabab, stuttu áður en liðsmenn samtakanna myrtu tæplega 150 manns á háskólalóðinni í borginni Garissa á fimmtudaginn.

Aðeins voru tveir öryggisverðir að störfum á háskólasvæðinu þegar al-Shabab lét til skara skríða.

Þó svo að tveir sólarhringar séu liðnir síðan fjöldamorðið átti sér stað eru björgunarmenn enn að störfum. Í nótt fundust fjórir á lífi, þar af tveir sem taldir eru vera liðsmenn al-Shabab. Alls eru fjórir árásarmenn nú í haldi yfirvalda og verða þeir yfirheyrðir á næstu dögum.

Ljóst er að stjórnvöld og lögregluyfirvöld í Kenía voru meðvituð um að næsta skotmark al-Shabab yrði menntastofnun. Stuttu áður en árásin átti sér stað var háskólanum í Naíróbí tilkynnt að árás væri yfirvofandi að nauðsynlegt væri að efla öryggisgæslu í og við háskólann.

Þjóðarsorg ríkir nú í Kenýa og margir óttast að þetta sé aðeins upphafið á árásarhrynu samtakanna. al-Shabab hefur lýst yfir stríði gegn landinu þar sem herlið Kenýa hefur tekið þátt í aðgerðum Afríkubandalagsins gegn systursamtökum al-Shabab í Sómalíu.

Árásin á háskólann í Garissa er mannskæðasta árás al-Shabab en áður höfðu liðsmenn samtakanna myrt sextíu og sjö í Westgate-verslunarmiðstöðinni í höfuðborginni Naíróbí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×