Viðskipti innlent

Rannveig ætlar ekki að þiggja launahækkun frá HB Granda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Rannveig segir hækkunina á milli ára úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi
Rannveig segir hækkunina á milli ára úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi Vísir/GVA
Rannveig Rist ætlar ekki að þiggja þóknunarhækkun sem hluthafar í sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda samþykktu að veita stjórn fyrirtækisins. Í yfirlýsingu segir hún að hækkunin sé úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi.

Hækkunin hefur verið gagnrýnd harðlega en þóknun til stjórnar fyrirtækisins hækkaði um 33 prósent á milli ára. Rannveig segir að hún hafi ekki greitt atkvæði um tillöguna þar sem hún sé ekki hluthafi í fyrirtækinu.

Auk þess að vera í stjórn fyrirtækisins situr Rannveig í stjórn Samtaka atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir fjölmörg fyrirtæki í landinu í kjaramálum.

Þá bendir hún á að á milli aðalfunda hafi HB Grandi verið skráð á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland. „Það felur í sér að meira reynir á stjórnarhætti fyrirtækisins en áður, sem ekki er óeðlilegt að endurspeglist að einhverju leyti í þóknun stjórnar,“ segir hún.

Rannveig segir að þrátt fyrir hækkunina sé þóknun stjórnarmanna í fyrirtækinu sú næstlægsta á meðal fyrirtækja á Aðallista kauphallarinnar.

„Eftir á að hyggja er hækkunin á milli ára hins vegar úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi. Ég hef því ákveðið að þiggja hana ekki,“ segir Rannveig í yfirlýsingu sinni.


Tengdar fréttir

„Þú þvingar ekkert svar upp úr mér“

Kristján Loftsson gefur ekkert fyrir gagnrýni Vilhjálms Birgissonar á hækkun stjórnarlauna í HB Granda og segist ekki vilja svara því hvort hækka eigi lágmarkslaun til að ná sátt á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×