Handbolti

Gunnar Magnússon næsti þjálfari Haukanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Magnússon.
Gunnar Magnússon. Vísir/Andri Marinó
Gunnar Magnússon verður næsti þjálfari karlaliðs Hauka samkvæmt heimildum handboltavefsíðunnar fimmeinn.is.

Gunnar Magnússon hefur þjálfað lið ÍBV undanfarin ár og náði að gera liðið bæði að Íslands- og bikarmeisturum. ÍBV varð undir hans stjórn Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins í fyrra og svo bikarmeistari í fyrsta sinn í 24 ár á dögunum.

ÍBV liðið tapaði 2-0 fyrir Aftureldingu í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar og er því komið í sumarfrí.  Gunnar var búinn að tilkynna það fyrir úrslitakeppnina að hann ætlaði ekki að vera áfram með Eyjaliðið.

Patrekur Jóhannesson er að hætta þjálfun Haukaliðsins en hann er kominn með liðin inn í undanúrslit úrslitakeppninnar sem hefjast á fimmtudaginn.

„Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fimmeinn hefur Gunnar Magnússon og handknattleiksdeild Hauka gengið frá samningum um að Gunnar taki við meistaraflokki karla hjá Haukum og þetta verði gert opinbert á morgun," segir í umræddri frétt á fimmeinn.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×