Innlent

Máttu ekki reka Snorra: Íhugar að snúa aftur til starfa í Brekkuskóla

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Uppsögn Snorra Óskarssonar í Betel frá störfum við grunnskóla á Akureyri hefur verið dæmd ólögleg.
Uppsögn Snorra Óskarssonar í Betel frá störfum við grunnskóla á Akureyri hefur verið dæmd ólögleg. VÍSIR/AUÐUNN NÍELSSON
Snorri Óskarsson sem jafnan er kenndur við söfnuðinn Betel vann mál sem Akureyri hafði höfðað gegn honum í héraðsdómi  Norðurlands eystra  fyrir helgi. Hann íhugar nú hvort hann snúi aftur til kennslu í  Brekkuskóla , þaðan sem honum var sagt upp árið 2012. Uppsögn hans frá störfum við grunnskóla á Akureyri hefur verið dæmd ólögleg, líkt og innanríkisráðuneytið hafði áður komist að niðurstöðu um.



Óöruggur gagnvart skólastjóranum

Ætlar Snorri þá að snúa aftur til starfa hjá bænum? „Það getur vel verið. Af hverju á maður að útiloka það. Þarna var gott fólk sem ég vann með og þetta er stofnun sem mér þykir vænt um,“ segir hann. „Mér þykir hins vegar ekki heillandi að þurfa að vera undir skólastjóra sem hefur ekki sýnt betri dómgreind en þetta. Það er nú það sem kannski stoppar mann helst.“



Snorri segist óviss um hvar hann stendur gagnvart stjórnendum ákveði hann að snú aftur til starfa hjá  Brekkuskóla . „Stend ég höllum fæti, verður aftur ráðist á mig, eða hvað gerist? Get ég treyst því að yfirvöld verji mig?“ segir hann. 



Málið byggt á fordómum

„Ég er sýknaður af öllum kröfum Akureyrarbæjar,“ segir Snorri um niðurstöðu dómsins. Hann segist vinna nú að málshöfðun á hendur bænum til að sækja sér skaðabætur en Snorri hefur verið launalaus frá því 1. janúar árið 2013. „Ég er bara afskaplega ánægður með þessa niðurstöðu enda þykir mér hún eðlileg miðað við framgöngu þessa fólks í réttarsal,“ segir hann. 



Snorri segist trúa því að málið grundvallist á fordómum stjórnenda í sinn garð. „Ég held að þetta hafi verið fyrst og fremst vegna fordóma þeirra í minn garð sem þetta fór svona. Þú mátt vera sammála samkynhneigð en ef þú finnur eitthvað að henni þá er eitthvað að þér. Það er náttúrulega ómöguleg afstaða,“ segir hann. 



Snorri bendir á að það séu sameiginlegir hagsmunir kennara að standa vörð um tjáningarfrelsi þeirra. „Mér þykir það undarlegt að Kennarasamband Íslands hafi ekki viljað verja mig, þó að þetta sé mitt stéttarfélag,“ segir hann.



Sér ekki eftir neinu

Nú þegar málinu er lokið, sér Snorri eftir því að hafa tjáð skoðanir sínar um samkynhneigð? „Ég sé ekkert eftir því. Ég er enn sömu skoðunar,“ segir hann og bætir við: „Þetta er synd en það er ekki þar með sagt að við séum að ráðast á fólki.“ 



Snorri segir að samkynhneigð sé eins og hver önnur synd sem menn biðja fyrir í kirkju. „Þú veist hvað er sagt þegar þú kemur í kirkju, þá erum við látin biðja fyrir því að hafa syndgað margvíslega í hugsunum og orðum. Það hrekkur enginn í kút við það en það hrökkva allir í kút þegar það er sagt að samkynhneigð sé synd. Það er bara alveg eins og hórdómur og aðrir lestir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×