Ómannað rússneskt geimfar á leið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar með birgðir steypist nú stjórnlaust til jarðar eftir að samband við farið rofnaði.
Farinu var skotið á loft í Kasakstan í gær en samband við geimfarið rofnaði nokkru síðar.
Rússneska fréttastofan TASS greinir frá því að vísindamenn vinni að því að ná sambandi við Progress M-27M en að líklegast sé að það brenni upp þegar það nær inn í gufuhvolf jarðar.
Nægar birgðir eru um borð í geimstöðinni svo sex áhafnarmeðlimir þurfa ekki að hafa sérstakar áhyggjur af birgðaskorti.
Rússneskt geimfar steypist stjórnlaust til jarðar
Atli Ísleifsson skrifar
