Innlent

Nærri 30 þurfa líffæri ár hvert

Linda Blöndal skrifar
Rúmlega fertug kona sem fór í tvöfalda lungnaígræðslu segir fjölda þeirra sem þurfi líffæragjöf mun meiri en fólk geri sér almennt grein fyrir, en hún sjálf gæti hún aftur þurft á lungum að halda. Tæplega tuttugu þúsund manns hafa nú tekið afstöðu til líffæragjafar hér á landi.  

Fyrir átta mánuðum voru grædd í Guðnýju Lindu Óladóttur lungu á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg í aðgerð sem er mjög áhættusöm og tekur tíu klukkustundir. Guðný sem er fjölskyldukona segir erfitt að segja hvað hún hefði átt mikið eftir ólifað fyrir ígræðsluna en hún var með lungnasjúkdóm sem nefnist ósértæk lungnatrefjun. 



Gat ekkert gert 

„Ég var eiginlega bara inniliggjandi á Borgarspítalanum og Reykjalundi. Ég gat ekkert gert, ég gat ekki gengið, ekki baðað mig sjálf eða klætt mig. Ég þurfti tíu til fimmtán lítra af súrefni til að komast úr rúmi og inn á klósett. Þetta var raunverulega ekkert líf", sagði Guðný í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Aðspurð hvað hefði gerst hefði hún ekki fengið lungun segir hún að það hefði bara farið á einn veg. „Ég hefði bara dáið. Lungun hefðu bara eyðilagst og það lifir enginn án þess að hafa lungu".

Ekkert öruggt

Guðný getur átt von á því að hvenær sem er hafni líkami hennar nýju lungunum, jafnvel strax á morgun. Þess vegna gæti hún þurft aðra ígræðslu og önnur lungu en slíkt hendir fjölmarga líffæraþega að lenda aftur á biðlista eftir líffæri. Mikill skortur er þó á líffærum til gjafa.

Einn gjafi getur bjargað átta manns

„Ég held að fólk geri sér enga grein fyrir því að það eru 25 til 30 manns sem þurfa líffæraígræðslu á Íslandi á hverju ári. Það er mjög mikilvægt að vekja þessa umræðu og fólk taki afstöðu því hver líffæragjafi getur bjargað allt að átta mannslífum og bætt lífsgæði annarra", segir Guðný.

Nær allir sem hafa tekið afstöðu til líffæragjafa á vef Landlæknis vilja gefa úr sér líffæri að sér látnum (grafík) og nú hafa 1.800 manns skráð sig á vefinn. Flestir þeirra sem tekið hafa afstöðu til líffæragjafar eru konur og fólk á aldrinum átján til fjörtíu ára. 



„Ég varð að spyrja"

Hún segist ekki vita hver átti lungun sem voru grædd í hana. „Þetta er góð spurning en nei, ég veit það ekki en ég sagði við manninn minn áður en ég fór að ég gæti ekki farið af spítalanum án þess að spyrja. Ég vissi að ég myndi ekki fá svörin en ég varð að spyrja".  

Líffæraþegar hafa þó þann möguleika að skrifa þakkarbréf til fjölskyldu gjafans í gegnum norræna líffærabankann.


Tengdar fréttir

Fjölskylda Skarphéðins vill minnast líffæragjafa

"Við vitum á eigin skinni hversu erfitt er að standa frammi fyrir því að missa nákominn og erum Skarphéðni okkar ævinlega þakklát fyrir að hafa verið búinn að taka afstöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×