Innlent

„Við munum standa í þessu svo lengi sem nauðsyn krefur“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins og Páll Halldórsson, formaður BHM.
Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins og Páll Halldórsson, formaður BHM. Vísir/GVA/Stefán
Pattstaða er í samningaviðræðum Bandalags háskólamanna og ríkisins. Formaður BHM segir samningsvilja skorta hjá stjórnvöldum.

Fundi samninganefnda ríkisins og BHM lauk á sjötta tímanum í Karphúsinu án árangurs. Næsti fundur hefur ekki verið boðaður fyrr en eftir helgina. „Þetta var út af fyrir sig ágætis fundur en hann færði okkur lítið nær lausninni,“ segir Páll Halldórsson formaður BHM.

Þá segir hann samningsvilja skorta hjá stjórnvöldum. „Stjórnvöld eru ekki enn þá tilbúin að gangast að því að menntun sé metin til launa á Íslandi. Það er okkar grundvallarkrafa,“ segir Páll og það velti á viðbrögðum við þessari kröfu hvort takist að ljúka samningaviðræðunum.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir mikið bera á milli deiluaðila. Ekki sé hægt að ganga að kröfum BHM. „Að okkar mati þá eru þær ekki neitt nálægt því sem að við getum komið nálægt,“ segir Gunnar.

„Verkföll eru alltaf neyðarbrauð og það fer enginn í verkföll sér til ánægju og ég vonast til að áhrifin verði þannig að viðsemjandi okkar fari að sjá að sér og við náum að ljúka þessu,“ segir Páll. Þá segir hann hug í sínu fólki. „Við munum standa í þessu svo lengi sem nauðsyn krefur,“ segir Páll Halldórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×