Innlent

Maðurinn sem veitti 20 kílóum af fíkniefnum viðtöku laus úr haldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um einn stærsta innflutning á fíkniefnum er að ræða hér á landi í áraraðir.
Um einn stærsta innflutning á fíkniefnum er að ræða hér á landi í áraraðir. Vísir/Valli
Íslendingurinn sem handtekinn var með um 20 kíló af fíkniefnum sem smyglað var til landsins á föstudaginn langa hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Þetta staðfesti lögmaður mannsins í samtali við Vísi. Maðurinn, sem er rúmlega tvítugur, var úrskurðaður í gæsluvarðhald á föstudaginn langa og var í varðhaldi í tvær vikur áður en hann var látinn laus.

Jón Egilsson, lögmaður mannsins, segir ljóst að skjólstæðingur sinn hafi verið notaður í málinu. Hann sé ekki viðriðinn innflutninginn að öðru leyti en því að hann var fenginn til að veita hlut viðtöku án þess að vita í hverju hlutverk hans fólst.

Eftir að hollenskar mæðgur voru teknar í Leifsstöð var sett upp svokölluð tálbeituaðgerð sem leiddi til þess að Íslendingurinn var handtekinn á hótelherbergi í Reykjavík.

Mæðgurnar sitja í gæsluvarðhaldi en þær eru vistaðar í Kópavogsfangelsi. Ekki hefur verið tekin frekari ákvörðun um framhaldið hjá þeim. Málið þykir vandasamt þar sem stúlkan er einungis sautján ára og því undir lögaldri. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er mælst til þess að börn sitji ekki í fangelsi með fullorðnum en málið er óvenjulegt þar sem um mæðgur er að ræða og tengsl þeirra náin.


Tengdar fréttir

Sautján ára stúlka í gæsluvarðhaldi

Mæðgur sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir tilraun til stórfellds smygls. Stúlkan er barn samkvæmt lögum en vegna náinna tengsla sakborninga þykir ekki rétt að senda hana í sérstakt úrræði á vegum barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×