Innlent

Útilokað að fallast á kröfur Starfsgreinasambandsins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að það muni valda glundroða á vinnumarkaði ef einstök fyrirtæki innan samtakanna geri sérsamninga við verkalýðsfélög. Hann segir útilokað að fallast á kröfur Starfsgreinasambandsins og sakar forystumenn þess um ábyrgðarleysi.

Verkfallsaðgerðir Starfsgreinasambandsins hefjast á fimmtudag í næstu viku og standa með hléum til 26. maí en þá hefst ótímabundin vinnustöðvun. Verkfallið nær til tíu þúsund félagsmanna og mun meðal annars hafa mikil áhrif á starfsemi fiskvinnslu- og ferðaþjónustufyrirtækja.

Forystumenn verkfalýðsfélaga á Húsavík og Akranesi segjast finna fyrir miklum áhuga fyrirtækja að ganga frá samningum sem fyrst án aðkomu Samtaka atvinnulífsins til að koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir. 

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins  segist hins vegar ekki kannast við að fyrirtæki innan samtakanna hafi falast eftir slíkum sérsamningum.

„Samningsumboð fyrirtækja sem eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins liggur hjá SA nema þau séu með sérstaka þjónustuaðild eins og það er kallað sem örfáir aðilar eru með. Almennt er reglan sú að samningsumboðið liggur hér og þar með þá heimild til gerðar kjarasamnings,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að að það muni valda glundroða á vinnumarkaði ef einstök fyrirtæki innan samtakanna geri sérsamninga við verkalýðsfélög.

„Ég held að slíkt muni valda glundroða á vinnumarkaðinum ef einstök fyrirtæki fara að gera mjög ólíka kjarasamninga. Það verður ekki til lausnar á neinu ástandi,“ segir Þorsteinn.

Hann segir ekki koma til greina að fallast á kröfur Starfgreinasambandsins um 50 til 70 prósenta launahækkun.

„Það má í raun og veru segja að ábyrgðarleysið er algjört hvað þetta varðar því að það er alveg ljóst að afleiðingar af slíkum samningum yrði mjög mikil verðbólga, mjög hátt vaxtastig og á endanum myndi það setja hagkerfið hér í kælingu sem myndi þýða fækkun starfa,“ segir Þorsteinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×