Innlent

Íslensk ljósmóðir reiddist þegar móðir varð svekkt með kynið

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Ljósmæður hér á landi standa í baráttu fyrir betri kjörum.
Ljósmæður hér á landi standa í baráttu fyrir betri kjörum. Vísir
Ísland í dag fylgdist með degi í lífi ljósmóður á Landspítalanum. Edda Sveinsdóttir segist taka að meðaltali á móti einu barni á dag, þó þau geti orðið þrjú á góðum degi. „Hér hafa fæðst börn á kaffistofum, setustofum og víðar. Óvinsælasta fæðingastofan í húsinu er sennilega lyftan,“ segir Edda.

Ljósmóðirin Guðlaug Björnsdóttir hefur orðið vitni af því þegar móðir var ekki ánægð þegar hún heyrði kyn barnsins. „Ég varð pínulítið reið. Auðvitað ætti að skipta mestu máli að það sé allt í lagi, en ekki endilega hvaða kyn það er,“ segir Guðlaug.

Ljósmæður hér á landi standa í mikilli baráttu fyrir betri kjörum og hafa verið í verkfalli síðustu tvær vikur. Nám ljósmæðra er sex ára langt, en meðallaun þeirra á landinu öllu er 483 þúsund krónur á mánuði. Ljósmæður sinna mörgu og er til að mynda læknir ekki viðstaddur fæðingu nema eitthvað bregði útaf.

Mikið af vinnu ljósmæðra fer fram á kvöldin, næturnar og á hátíðisdögum. Verkfall ljósmæðra á Landspítalanum er þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga og á Akureyri mánudag og fimmtudaga. Það mun halda áfram þar til betur er boðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×