Viðskipti innlent

Stjórn VÍS afsalar sér 75% launahækkun

ingvar haraldsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. vísir/vilhelm
Stjórnarmenn í  VÍS hafa ákveðið að afsala sér hækkun stjórnarlauna. Á aðalfundi í mars síðastliðnum samþykktu hluthafar að hækka mánaðarleg laun stjórnarmanna um 75% þannig að stjórnarmönnum yrðu greiddar 350 þúsund krónur á mánuði og laun stjórnarformanns yrðu hækkuð um 50% svo honum yrðu greiddar 600 þúsund krónur á mánuði.

Eftir ákvörðunina verða laun stjórnarmanna 200 þúsund krónur á mánuði og laun stjórnarformanns 400 þúsund krónur á mánuði.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands bendir VÍS á að samhliða hækkun mánaðarlegra launa var greiðslum fyrir aukalega stjórnarfundi hætt. Var breytingunni ætlað að auka gagnsæi um fyrirkomulag stjórnarlaunanna.

„Afsal stjórnarmanna á hækkun launanna sem ákveðin var á aðalfundinum mun því leiða til umtalsverðrar lækkunar stjórnarlauna frá fyrra starfsári þar sem gamla fyrirkomulaginu um greiðslur fyrir setna aukafundi hefur verið hætt,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt kemur fram að stjórn VÍS vonist til að afsal hækkunar stjórnarlauna verði þáttur í að stuðla að sátt á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×