Innlent

Gröndalshús aftur í miðbæinn

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
mynd/reykjavíkurborg
Gröndalshús verður flutt að Vesturgötu 5b á morgun þar sem gerður hefur verið nýr grunnur fyrir húsið. Húsið var flutt frá Vesturgötu 16b um miðjan janúar 2010 og var ytra byrði þess endurgert á verkstað úti á Granda. Húsið er að utanverðu tilbúið að mestu en við endurgerð þess var tekið mið af upprunalegu útliti og byggingarstíl.

Undirbúningur flutningsins hefst upp úr hádegi á morgun. Húsið verður sett á flutningsvagn á verkstað við Fiskislóð. Síðdegis hefst undirbúningur við Vesturgötu og þarf því að loka aðkomu að bílahúsinu við Vesturgötu. Krananum verður komið fyrir og gerður tilbúinn fyrir hífingu. Bílar munu því hvorki komast í bílahúsið né frá því. Takmörkun verður á allri umferð um Mjóstræti og Fischersund. Flutningur hússins frá Granda verður eftir kl. 18.00 í samráði við lögreglu.

Saga Gröndalshúss

Gröndalshús á sér yfir 130 ára sögu. Árið 1881 byggði Sigurður Jónsson járnsmiður sér nýtt hús úr timbri sem barst til Íslands með gríðarstóru skipi sem rak mannlaust um hafið og strandaði í Höfnum. Sigurður bjó í húsinu og hafði þar járnsmiðju sína til 1888 en þá eignaðist það Benedikt Gröndal og eftir það var húsið kennt við hann.

Húsið var oft kallað Púltið, Skrínan eða Skattholið vegna hins sérkennilega byggingarlags, en það er tvílyft að framan og einlyft að aftan. Benedikt breytti járnsmiðjunni í stofu og bjó í húsinu til dauðadags árið 1907. Húsið var áfram í eigu fjölskyldu hans til 1927 þegar Ámundi Hjörleifsson og Eugenia I. Nilsen eignuðust það. Eugenia bjó í húsinu þar til hún lést árið 2004.

Reykjavíkurborg keypti húsið til varðveislu vegna menningarsögulegs gildis þess. Minjavernd annast framkvæmdir við nýjan grunn og flutning hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×