„Það væri mjög viðeigandi, nú þegar við erum að reyna að fara vel með þessar fáu krónur sem við eigum að ráðamenn kynntu sér þá möguleika sem eru í boði. Að gera ekkert, það er bara ávísun á erfiðleika, þjáningu, vandræði og kostar tugi milljarða.“
Í þætti kvöldsins kom fram að engin úrræði eru í boði hér á landi fyrir stúlkur undir lögaldri sem eignast börn, þrátt fyrir að unglingaþunganir séu mun algengari en í samanburðarlöndum. Um 150 unglingsstúlkur eignast börn á Íslandi á hverju ári.
Jenný er búin að vera með Jósef, sem er fjórum árum eldri, síðan í sumar. Þau höfðu þó verið vinir einhvern tíma á undan. Hún á nú von á barni þeirra.
„Ég var alltaf síælandi, bara á morgnana,“ segir Jenný. „Sem kom í veg fyrir að ég gæti mætt í skólann. Mér fannst þetta rosalega skrýtið og ég spurði marga hvað þetta gæti verið og svarið var að ég væri bara pottþétt ólétt.“
Jenný sagði móður sinni frá þunguninni við eldhúsborðið og Berglind segir sér hafa brugðið rosalega við fréttirnar.
„Ég fór bara í eitthvað rugl,“ segir hún. „Ég sagði bara: Eruð þið búin að hugsa þetta og þetta og ég er bara 35, ég get ekkert orðið amma núna. Eitthvað svona. Síðan bara róar maður sig niður og tók nokkra daga í þetta. Svo fór maður bara með hana í allt sem var í boði, félagsráðgjafa og lækna og allt þetta. Það var ósköp lítið sem ég get gert, nema bara segja: Ókei, svona er þetta.“
„Við gleymdum alltaf pillunni og pældum ekkert í sprautunni,“ segir Jenný. „Síðan kosta smokkar bara alveg svakalega mikið, þannig að við vorum ekkert mikið að sækjast eftir því.“
Berglind segir engin félagsleg úrræði vera í boði fyrir stúlkur sem eignast börn undir lögaldri. Þær lendi hreinlega í gati í kerfinu.
„Kerfið á Íslandi tekur ekki á móti börnum sem eru að eiga börn, það er bara þannig. Mér skilst að hún fái fæðingarstyrk, af því að hún er náttúrlega ekki í neinni vinnu og ekki neitt. En hún á ekki rétt á neinu af því að hún er svo ung sjálf,“ segir Berglind.