„Ákvörðunin um að semja þessa ályktun var tekin einfaldlega vegna þess að PPI skortir algjörlega þau grunngildi og ferla sem Píratar á Íslandi starfa eftir. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að breyta lögum PPI og starfsemi samtakanna hefur það ekki gengið,“ segir Arnaldur Sigurðarson, en hann situr í framkvæmdaráði Pírata. Hann tekur fram að eftir fimm ára starf hefur lítið gerst hjá samtökunum og því telji Píratar á Íslandi að tími sé kominn fyrir nýtt alþjóðastarf með öflugum Pírötum í gegnum aðrar leiðir en í samstarfi við PPI.

„Nokkrir innan Pírata hafa verið virkir í samskiptum við aðra meðlimi erlendis um stöðu alþjóðasamstarfs. Markmiðið virðist vera að skapa öðruvísi vettvang sem gerir alþjóðasamstarf auðveldara og meira í takt við grunngildi Pírata sem skortir hjá PPI. Þetta er ennþá í vinnslu og erfitt að segja til um hvernig sá vettvangur kemur til með að líta út,“ segir Arnaldur.
Arnaldur telur ljóst að eftir kosningarnar í gær að Píratar hér á landi vilji fara nýjar leiðir í alþjóðasamstarfi við aðra flokka sem séu sammála þeirra grunngildum. Um 1443 meðlimir voru skráðir í flokkinn í lok mars, en að sögn Arnaldar hafa þó ekki allir meðlimir ákveðið að gerast þátttakendur í kosningakerfinu.