Innlent

Mikið slátrað á næstunni

Linda Blöndal skrifar
Gríðarlega þröngt er um dýrin og eiga þau erfitt með að hvílast í svo þröngu rými.
Gríðarlega þröngt er um dýrin og eiga þau erfitt með að hvílast í svo þröngu rými. vísir/Auðunn
Átta undanþágur voru veittar í dag af undanþágunefnd dýralækna til slátrunar svína. Það er stór hluti þeirra sem eftirlitsmenn dýralækna töldu fyrir mörgum dögum að þyrfti að koma í sláturhús.

Yfirlýsing svínaræktenda frá því seint í gær skipti sköpum. Í henni segjast bændur ekki munu setja kjöt á markað sem fæst slátrað með undanþágu. Bændur telja sig ekki hafa annan kost en að fara að kröfum dýralækna og frysta kjötið eigi að tryggja velferð dýranna. Sláturhús og afurðarstöðvar, sem eru oft í annarra eigu en bænda hafa líka gengist undir skilyrðin.

Bændur í erfiðri stöðu

Langt er þó í að svínaræktendur séu sáttir og óttast sumir að fjárhagslegir erfiðleikar geti sligað sum búin dragist verkfallið á langinn. Einnig hafa þeir gagnrýnt að dýralæknar taki sér vald með því að þvinga þá til að frysta kjötið. Aðkoma dýralækna sé lokið þegar vottum við slátrun er lokið.

Hvað gerist eftir það sé ekki í þeirra valdi. Svínaræktendur hafa þó ekki viljað að svo stöddu segja neitt um hvort þeir láti reyna á lagalegan rétt dýralækna til að setja skilyrði eftir slátrun.

Fjórar undanþágubeiðnir höfðu verið veittar áður, tvær fyrr í morgun en  nokkur hundruð dýrum var þá slátrað sem vann lítið á vandanum í heild. Eitt svínabú var í dag með um 2000 svín sem biðu slátrunar. Þrengslin á búunum hafa orðið til þess að ekki er hægt að hreinsa stíur og setja nýja grísi inn í þær og halabit hjá dýrunum er orðið vandamál. Tvær undanþágubeiðnir til viðbótar bíða afgreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×