Enski boltinn

42 milljónir á viku ekki nógu há laun fyrir Pogba

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba fær vel greitt á næsta áfangastað.
Paul Pogba fær vel greitt á næsta áfangastað. vísir/getty
Ítalíumeistarar Juventus eru svo gott sem búnir að játa sig sigraða í baráttunni um að halda franska landsliðsmanninum Paul Pogba hjá liðinu.

Forráðamenn Juventus vita að peningurinn sem skapast af sölu hans getur hjálpað til við að endurbyggja liðið.

Mino Raiola, umboðsmaður Pogba, er að hjálpa Juventus að selja leikmanninn, samkvæmt fréttum breskra miðja, og verður kaupverðið í kringum 58 milljónir punda eða 11,6 milljarða íslenskra króna.

Paris Saint-Germain er talinn líklegasti lendingarstaður þessa 22 ára gamla Frakka, en ensku liðin Chelsea og Manchester City eru einnig í baráttunni.

Eitt er víst að Pogba verður ansi ríkur ungur maður í framtíðinni, en forráðamenn hans hafa nú þegar hafnað launatilboði PSG upp á 210 þúsund pund á viku. Það gera 42 milljónir króna í vikulaun.

Pogba hefur verið meiddur undanfarnar vikur, en búist er við að hann snúi aftur í seinni leik Juventus gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Santiago Bernabéu í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×