Innlent

Benjamín Nökkvi látinn

Bjarki Ármannsson skrifar
Benjamín Nökkvi Björnsson er látinn, ellefu ára að aldri. Benjamín vakti athygli í fyrra fyrir baráttu sína við mikil veikindi en hann glímdi við erfiðan lungnasjúkdóm síðustu árin.

Benjamín greindist með afar sjaldgæfa hvítblæðistegund aðeins níu vikna gamall. Hann losnaði við meinið átta mánaða gamall eftir beinmergsskiptaaðgerð í Svíþjóð og var fyrsta barnið hér á landi sem lifði af þessa tegund hvítblæðis. Hann greindist aftur með krabbamein vorið 2005 en tókst að vinna bug á því með öðrum beinmergsskiptum og ýmsum erfiðum meðferðum.

Það var svo árið 2010 sem hann greindist með lungnasjúkdóminn sem erfitt var að ráða við og varð til þess að Benjamín gat ekki gengið í skóla síðustu ár ævi hans. Benjamín og fjölskylda hans komu fram í Íslandi í dag í fyrra og sögðu þar sögu sína. Þar var Benjamíni lýst sem jákvæðum og skemmtilegum dreng sem sá alltaf eitthvað gott við hvern einasta dag.

Innslag Íslands í dag um Benjamín Nökkva má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

„Gangandi kraftaverk“

Benjamín Nökkvi greindist með alvarlegan sjúkdóm og var honum ekki hugað líf. Þrátt fyrir þrálát veikindi alla hans ævi stendur hann sig eins og hetja og lítur lífið björtum augum.

„Benjamín er sterkasti krakki sem ég þekki“

Árbærinn sameinaðist í dag í stuðningi sínum við Benjamín Nökkva sem glímir við lífshættulegan lungnasjúkdóm og hefur í tvígang sigrast á hvítblæði. Bekkjarsystkini hans stóðu fyrir söfnun í dag en þau lýsa bekkjarbróður sínum sem miklu hörkutóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×