Innlent

Vill að ríkisstjórnin greiði fyrir lausn fremur en að herða hnútinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ríkisstjórnin ætti að greiða fyrir lausn kjaradeilna á vinnumarkaði fremur en að herða hnútinn. Þetta segir formaður Vinstri-grænna sem hefur þungar áhyggjur af stöðu mála.

Sérstök umræða verður á Alþingi á morgun um stöðuna á vinnumarkaðnum. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, óskar eftir umræðunni en þar ætlar hún að krefja forsætisráðherra svara um hvað ríkisstjórnin hyggst gera til að til að greiða fyrir lausn mála. „Ég eins og aðrir hef auðvitað þungar áhyggjur af stöðu mála á vinnumarkaði. Við erum að horfa á verkföll sem eru að valda verulegu tjóni og manni sýnist mjög lítið miða í viðræðum á ýmsum vígstöðvum þannig að ég vil heyra í forsætisráðherra,“ segir Katrín.

Hún segir málin í miklum hnút og að ríkisstjórnin þurfi að bregðast við. „Það er allavega mikilvægt að ríkisstjórnin reyni að greiða fyrir lausn mála fremur en að herða hnútinn. Það heyrist ekki mikið frá ríkisstjórninni svona í lausnaátt. Mér hafa ekki þótt það taktísk útspil að vera að ræða sérstaklega um að það þurfi að þrengja verkfallsréttinn eða það sé forgangsatriði að lækka raforkuskatt þegar við ættum einmitt frekar að horfa hér á tekjulægstu hópana. Hvað sé hægt að gera fyrir þá. Hvað sé hægt að gera í málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og svo framvegis. Þannig að stjórnvöld hafa ýmis tækifæri sem að mér finnst þá eðlilegt að séu skoðuð,“ segir Katrín Jakobsdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×