Innlent

Halldór Ásgrímsson látinn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lést á Landspítalanum í gærkvöldi.
Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lést á Landspítalanum í gærkvöldi. Vísir/Teitur
Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er látinn. Hann lést 67 ára að aldri á Landspítalanum eftir að hafa fengið hjartaáfall síðastliðinn föstudag. Hann var þá staddur í sumarhúsi sínu í Grímsnesi og var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur.

Halldór fæddist í Vopnafirði árið 1947. Foreldrar hans voru Ásgrímur Halldórsson, framkvæmdastjóri úr Höfn í Hornafirði, og Guðrún Ingólfsdóttir húsmóðir. Hann lauk Samvinnuskólaprófið árið 1965 og varð löggiltur endurskoðandi árið 1970. Á árunum 1971 til 1973 stundaði hann framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn. Hann varð í kjölfarið lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1974. Hann varð síðan varaformaður Framsóknarflokksins árið 1980 og formaður hans árið 1994. Halldór var skipaður sjávarútvegsráðherra árið 1983 og gegndi því embætti til 1991. Hann var einnig samstarfsráðherra um norræn málefni árin 1985–1987, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988–1989. Hann settist aftur í ráðherrastól árið 1995 og þá sem utanríkisráðherra. Hann gegndi því embætti til ársins 2004 en á árunum 1995–1999 var hann einnig samstarfsráðherra Norðurlanda. Hann var svo forsætisráðherra á árunum 2004–2006.

Halldór tók svo við stöðuframkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í byrjun árs 2007 þar sem hann starfaði til 2013.

Halldór lætur eftir sig eiginkonu, Sigurjónu Sigurðardóttur, þrjár uppkomnar dætur, Helgu, Guðrúnu Lind og Írisi Huld, auk barnabarna og barnabarnabarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×