Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur kveðið á um að vatnsmiðlun úr Stóra-Eyjavatni fari ekki inn á aðalskipulag þar sem það myndi hafa neikvæð áhrif á vatnasvið Dynjanda - en fossinn er friðaður með lögum.
Orkubú Vestfjarða hafði farið fram á miðlunina en skipulags- og mannvirkjanefnd lagðist gegn þeim tillögum af fyrrgreindum ástæðum en bb.is greindi fyrst frá málavöxtum.
Orkubúið hafði lagt fram beiðni um að veita vatni úr Stóra-Eyjavatni til að auka framleiðslu Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði. Orkubúið taldi það vænlegasta virkjunarkostinn þar sem innrennsli er 21 gígalítri á ári úr Stóra-Eyjavatni eða meðalrennsli upp á 0,67 rúmmetra á sekúndu. Í áliti skipulags- og mannvirkjanefnd sagði um hugmyndir Orkubúsins að ekki komi til greina að skerða náttúrulega fegurð Dynjanda með skerðingu á vatnasviði hans.
Þá segir á vef Þingeyrar að Alþingi hafi samþykkt lög þann 12. maí 1926 um að heimila ráðherra að veita dönskum félögum sérleyfi í sextíu ár til að virkja Dynjandisá og önnur fallvötn í Arnarfirði. Rúmum aldarfjórðungi síðar var Rafmagnsveitum ríkisins heimilað að virkja Dynjandisá eða Mjólká en Mjólkárvirkjun var tekin í notkun sumarið 1958.

