Bíó og sjónvarp

„Grunar að þetta hafi verið Íslandsmet í standandi lófaklappi“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Grímur Hákonarson milli aðalleikaranna Theódórs og Sigurðar.
Grímur Hákonarson milli aðalleikaranna Theódórs og Sigurðar. vísir/getty
„Mig grunar að þetta hafi verið Íslandsmet í standandi lófaklappi. Það var klappaði í um tíu mínútur að sýningu lokinni,“ segir Grímur Hákonarson. Hann er um þessar mundir staddur í Cannes í Frakklandi á þekktustu kvikmyndahátíð heimsins.

Kvikmynd hans, Hrútar, var valin til þátttöku í Un Certain Regard flokki hátíðarinnar og var frumsýnd í morgun á hátíðinni. „Þetta var salur sem tekur yfir þúsund manns og í toppstandi að öllu leiti. Algjörlega frábærar aðstæður til að frumsýna mynd.“

Þegar blaðamaður náði tali af Grím sat hann að snæðingi ásamt aðstandendum myndarinnar en 25 manna hópur frá Hrútum er á hátíðinni. „Ég hef auðvitað ekki séð neina dóma enda var myndin bara að klárast. Fyrstu viðbrögð voru mjög jákvæð. Á sýningunni var fjöldi manns sem vinnur fyrir erlenda dreifingaraðila og hún getur skipt sköpum um framtíð myndarinnar, hvar hún verður sýnd og á hvaða hátíðum.“

Myndin betri því andinn var svo góður

Hátíðin var sett í fyrradag og lýkur sunnudaginn eftir viku. Enn sem komið er hefur Grímur ekki náð að sjá neinar myndir þar sem hann hefur verið upptekinn vegna Hrúta. „Fyrstu dagana fór ég í fáein viðtöl og það eru fleiri á döfinni næstu daga. Ég held ég nái ekki að kíkja á neitt annað fyrr en eftir helgi.“

„Það eru fimm verðlaun í boði fyrir okkur á hátíðinni og við eigum séns í þau öll. Ég var viðstaddur á opnunarhátíðinni og þar voru sýnd brot úr öllum myndunum. Mér sýndist þær allar vera skrambi góðar en maður veit aldrei,“ segir Grímur.

Myndin verður frumsýnd hér á Íslandi í lok maí en áður verður hún forsýnd í Bárðardal þar sem hún var tekin upp. „Hópurinn sem stendur að myndinni er stórkostlegur. Við áttum mjög góð samskipti við bændurna í sveitinni og andinn í hópnum var allan tíman mjög góður. Ég er handviss um að það skilar sér í myndinni. Það er eitthvað extra í henni sem hefði ekki verið ef stemningin hefði ekki verið svona góð.“

„Svo er bara að vona að það verði rigning í allt sumar svo fólk mæti í bíó í stað þess að gera vitleysu á borð við að fá sér ís eða fara í sund,“ segir Grímur að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×