Innlent

Umboðsmaður vill að innanríkisráðuneytið skoði kvörtun flugfarþega

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Flugfarþegi ósáttur við umfjöllun Samgöngustofu um kvörtun vegna flugfélags.
Flugfarþegi ósáttur við umfjöllun Samgöngustofu um kvörtun vegna flugfélags. Vísir/Getty Images/Valli
Umboðsmaður Alþingis vill að innanríkisráðuneytið taki til umfjöllunar stjórnsýslukæru sem óánægður flugfarþegi sendi ráðuneytinu vegna umfjöllunar Samgöngustofu á kvörtun sinni. Þetta kemur fram í áliti á vef umboðsmanns.



Maðurinn kvartaði upphaflega til Samgöngustofu yfir flugfélagi sem ekki virti bókun hans og eiginkonu hans á ákveðnum sætum í flugvél sem þau fóru með.



Samgöngustofa svaraði kvörtun mannsins á þann veg að stofnunin hefði skilning á þeim óþægindum sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins en að ekki væri séð að flugfélagið hefði brotið gegn lögum um loftferðir.

Maðurinn var ósáttur við þessa niðurstöðu og sendi í kjölfarið tölvupóst til innanríkisráðuneytisins undir yfirskriftinni: „Kærubréf á ákvörðun og niðurstöðu Samgöngustofu.

Ráðuneytið taldi ekkert í bréfi mannsins benda til þess að Samgöngustofa hafi afgreitt erindi mannsins með óeðlilegum hætti og fjallaði ekki frekar um málið.



Umboðsmaður telur að erindi mannsins hafi ekki endaði í réttum farvegi samkvæmt lögum. Jafnframt telur umboðsmaður að Samgöngustofa hafi ekki verið nógu skýr um í hvaða farveg kvörtun mannsins var lögð.



Samgöngustofu var sérstaklega kynnt álitið og mældist umboðsmaður til þess að stofnunin gæti framvegis betur að úrlausn um kvartanir flugfarþega séu skýrar og gætt sé að veittar séu leiðbeiningar samkvæmt stjórnsýslulögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×