Innlent

Nautakjötið að klárast: „Við erum búnir með okkar“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Neytendur þurfa fljótlega að velja sér annað kjöt en nautakjöt á grillið.
Neytendur þurfa fljótlega að velja sér annað kjöt en nautakjöt á grillið. Vísir/Getty Images
Nautakjötsbyrgðir Norðlenska eru á þrotum. Verið er að pakka síðustu nautakjötsvörunum frá fyrirtækinu í vikunni. Ekki hefur verið slátrað í þrjár vikur og ófyrirséð er hvenær slátrað verður að nýju.



Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir stöðuna erfiða. „Það hefur verið neyðarslátrun á svíni því að þau vaxa svo hratt en því er ekki til að dreifa í nautinu,“ segir hann. „Við erum búnir með okkar.“



Hann segist telja að staðan sé svipuð hjá öðrum kjötvinnslum á landinu; birgðirnar séu að klárast eða þegar búnar. „Það er svo heldur ekki verið að flytja það inn því að dýralæknar þurfa að stimpla það sem er flutt inn,“ segir hann.



„Þetta ferska kjöt í búðunum dettur fyrst út,“ segir Sigmundur sem segir að hamborgarastaðir hafi byrgt sig upp af borgurum. „Það eru nokkrir dagar eða vikur þar til hjólin fara að snúast aftur í nautakjöti.“



Sigmundur segir að Norðlenska hafi átt nokkur tonn af frosnu nautakjöti sem nú sé búið. „Við áttum nokkur tugi tonna í frosti sem eru að megninu til farin út. Menn safna að sér birgðum fyrir sumarið því það er nú vinsælasti grillmaturinn, hamborgarinn, sem er úr nautahakki,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×