Innlent

VR tekur jákvætt í hugmyndir SA

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR og Sigurður Bessason formaður Eflingar.
Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR og Sigurður Bessason formaður Eflingar.
Viðræður virtust hrökkva í gír í karphúsinu í dag eftir að lítið hefur verið um að vera. Flóabandalagið, verslunarmenn, hjúkrunarfræðingar og BHM skoða nú hugmyndir eða tilboð á svipuðum nótum og það sem Starfsgreinasambandið fékk.

Vantar meira kjöt á beinin

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR er bjartsýn á að í hugmyndir SA geti verið grunnurinn að samkomulagi. Það sé jákvætt hvað varði vinnutímafyrirkomulag og starfsmenntamál. Málið sé að taka jákvæðum breytingum hvað varði VR en þessar tillögur komi mismunandi út fyrir hópa innan félagsins. Það sé mikill vilji til að finna leiðina að sátt enda ekki boðlegt að fara inn í þau verkföll sem blasi við annars.

Sigurður Bessason formaður Eflingar segir að það vanti of mikið kjöt á beinin til að hægt sé að kalla hugmyndir SA tilboð. Það sé ekki hægt að segja að það sé komið fram fóður í endanlega samninga. Á þessu augnabliki sé ekkert tilefni til að ætla að málið sé að klárast.

Lagasetning ekki óumflýjanleg

Kjaradeilur voru ræddar í ríkisstjórn í morgun en ríkisstjórnin gefur ekkert upp sem liðkað geti fyrir lausn deilna á almennum vinnumarkaði.

Fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin geti ekki liðkað fyrir kjarasamningum með útspili að hálfu ríkisins nema launþegahreyfingin sameinist um áherslur og komi fram sem ein heild. Ríkisstjórnin hafi lýst sig reiðubúna að ræða skattkerfisbreytingar, húsnæðismál og námslán en það sé ekki gerlegt að leggja slíkt á borðið við núverandi aðstæður.

Ríkisstjórnin ræddi ennfremur greinargerð landlæknis um verkfall heilbrigðisstarfsfólks og afleiðingar þess fyrir Landsspítalann. Bjarni Benediktsson segirekki koma til greina að setja lög á verkfall heilbrigðisstarfsfólks nema það verði óumflýjanlegt. Slík staða sé ekki uppi núna þótt ástandið sé alvarlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×