Innlent

„Barist á kostnað okkar sem berjumst fyrir lífinu“

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. skrifar
Arndís Halla Jóhannsdóttir sem glímir við krabbamein hefur beðið í hálfan mánuð eftir segulómun. Hún segist vera sár og reið vegna verkfallsins en allir virðist firra sig ábyrgð á ástandinu. Hún hefur farið í gegnum tvær krabbameinsmeðferðir og kláraði lyfjameðferð nú í desember. Hún á að vera í eftirliti á þriggja mánaða fresti en nú hefur það tafist í í tæpar tvær vikur.

Hún bendir á að það sem sé læknanlegt geti orðið ólæknandi ef það greinist of seint. ,,Því miður er ekki hægt að semja við hraðvaxta krabbameinsfrumur,“ segir hún. „Það er sárt að hugsa sig til þess að þeir sem berjast fyrir bættum kjörum geri það á kostnað þeirra sem berjist fyrir lífi sínu.“ Hún segist styðja baráttu heilbrigðisstarfsfólksins: „En mér finnst aðferðin skelfileg.“

Hún segir að læknaverkfallið hafi ekki komið illa við hana beint en þó valdið henni miklum kvíða. Núna eru hjúkrunarfræðingar að undirbúa verkfallsaðgerðir til viðbótar við geislafræðinga og fleiri sem eru í verkfalli núna. Hún segist skilja málstað þeirra og styðji þá í baráttunni. Það virðist þó ótrúlega fljótt gripið til verkfallsvopnsins. „Þetta gerir mig enn hræddari,“ segir hún og bætir við að fólk þurfi að huga að því hvort það vilji búa hér eða erlendis, til að geta búið við þokkalegt öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×