Handbolti

Sunna María: Var miklu betur stemmd í síðasta leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sunna María skoraði fimm mörk í þriðja leiknum gegn Gróttu.
Sunna María skoraði fimm mörk í þriðja leiknum gegn Gróttu. vísir/þórdís inga
Grótta getur orðið Íslandsmeistari í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld þegar liðið mætir Stjörnunni í fjórða leik liðanna í lokaúrslitum Íslandsmótsins. Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Gróttu eftir 22-18 sigur á Seltjarnarnesi á sunnudag.

„Við löguðum allt frá leiknum þar á undan þegar við töpuðum,“ segir Sunna María Einarsdóttir, leikmaður Gróttu, við Fréttablaðið.

„Við vorum miklu betri í vörn og þær voru svolítið hræddar. Svo fengum við mörk frá fleiri leikmönnum sem skiptir máli í svona leikjum,“ segir Sunna María.

Ein þeirra sem mætti tilbúin til leiks í síðasta leik var Sunna, en hún skoraði fimm mörk úr átta skotum eftir að skora samtals aðeins eitt mark í leikjunum tveimur þar á undan.

„Ég var miklu betur stemmd eins og allt liðið. Það var nokkuð augljóst fyrir þá sem horfðu á að það var meiri stemning hjá okkur,“ segir hún.

Gróttuliðið missti tvo lykilmenn í meiðsli í miðjum lokaúrslitunum; Laufey Ástu Guðmundsdóttur og Karólínu Bæhrenz Lárudóttur.

„Í úrslitakeppninni er þetta ekki bara spurning um hvort liðið er betur mannað. Við erum með góðan hóp og mikla breidd sem hefur mikið að segja en það skiptir ekki öllu,“ segir Sunna María.

„Það skiptir bara máli hversu tilbúin þú ert og hvort liðið einfaldlega vill þetta meira. Þannig er úrslitakeppnin og sérstaklega lokaúrslitin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×