Innlent

Verkfallsboðun starfsmanna Fjársýslunnar úrskurðuð ólögmæt

Bjarki Ármannsson skrifar
Félagsdómur úrskurðaði í kvöld að boðun verkfalls starfsmanna Fjársýslu ríkisins, sem samþykkt var í síðasta mánuði, hafi verið ólögmæt. Ótímabundið verkfall átti að hefjast á morgun.

Páll Halldórsson, varaformaður BHM, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp að úrskurðurinn breytti engu um það að verkfall stæði yfir og mikilvægt væri að gengið væri til samninga sem fyrst, sérstaklega í ljósi þess að Landspítalinn hafi sent frá sér neyðarkall um helgina.

Það var Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) sem boðaði verkfallið. Ríkið stefndi félaginu fyrr í vor vegna boðunar annars verkfalls, sem stóð frá 20. apríl til 8. maí, en tapaði því máli fyrir Félagsdómi.

Páll vildi ekki tjá sig um það hvort ganga þyrfti til aðkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hjá starfsfólki Fjársýslunnar á ný. BHM fundar áfram með ríkinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×